Berglind Ásgeirsdóttir

Þriggja barna móðir og amma sem segist hafa tekið lífinu alltof alvarlega og vinnur sem sendiherra Íslands í París.

Reynsla og sögur Berglindar eru áhugaverðar og skemmtilegar enda hefur hún víða rutt brautina fyrir konur, haft mótandi áhrif í málefnum Íslands og látið að sér kveða í alþjóðasamfélaginu.

 

Hennar varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta Berglindi í heimsókn hennar til Íslands. Vonandi njótið þið lesturs ágripsins líkt og við nutum þess að spjalla við Berglindi.

08.03.2016, Anna Sigríður Hafliðadóttir
Berglind Ásgeirsdóttir Berglind Ásgeirsdóttir á Lofslagsráðstefnunni í París 2015

Hennar reynsla:

Afar fjölbreyttur ferill

Líklega þyrfti heila bók til að gera afrekum og reynslu Berglindar almennileg skil, en hér gerum við tilraun til að koma fram þessu helsta.

Berglind starfaði við blaðamennsku með námi, vann hjá utanríkisráðuneytinu í 10 ár eftir útskrift, réð sig sem ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytið, sinnti formennsku í nefnd fæðingarorlofsbreytinga, varð fyrsta konan í Evrópu til að sinna stöðu aðstoðarframkvæmdarstjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og var framkvæmdastjóri Norðurlandsráðs, sneri svo aftur í utanríkisráðuneytið á skrifstofu viðskipta- og Evrópumála. Þá var hún ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu og tók síðar við sem sendiherra Íslands í Frakklandi. Þar er hún í ótrúlega fjölbreyttu starfi, en hún sinnir einnig Ítalíu og Spáni auk 6 annarra landa. Þá er hún fulltrúi Íslands hjá OECD og hjá Menningar- og vísindastofnuninni UNESCO og einnig hjá Evrópuráðinu í Strasburg sem sinnir mannréttinda og lýðræðismálum og stendur vörð um réttarríkið.

Fyrsta konan

Berglind hefur verið dugleg að ryðja veginn fyrir aðrar konur. Hún var fyrsti Íslendingurinn og fyrsta konan í Evrópu til að hljóta kosningu sem aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá OECD, fyrsti íslenski framkvæmdarstjóri Norðurlandaráðs, ásamt því að vera fyrsta konan til að gegna starfi ráðuneytisstjóra.

Hjá OECD var Berglind yfir þeim málaflokkum sem sneru að einstaklingum, s.s. umhverfismál, sjálfbær þróun og mennta-, félags- og heilbrigðismá,l en hlutverk hennar sem aðstoðarframkvæmdarstjóri var að samþætta vinnuna við þessi mikilvægu málefni.

Það var algjörlega frábær tími!” segir Berglind þegar við spyrjum hana út í tímann sem aðstoðarframkvæmdarstjóri OECD. Reynslan var engu lík, að koma fram fyrir Alþjóðastofnun 30 aðildarþjóða. Stofnunin vinnur margs konar tillögur til úrbóta á starfsemi sem er í einkageira eða hinum opinbera. Sífellt er leitað að bestu leiðunum.  

„Ég hef mikið lifað í karlaheimi”

Berglind hefur hrærst í mjög karllægum heimi. Þegar hún var ráðuneytisstjóri voru til dæmis allir hinir ráðuneytisstjórarnir miðaldra eða eldri menn. Það má líka segja að hjá  OECD vanti töluvert upp á jafnréttið, þó það hafi nú breyst á síðari árum. Í karlaveldi þurfa konur að vera harðari.

„Þú þarft jafnvel að skrúfa þig upp í meira sjálfstraust heldur en þú endilega hefur“

Berglindi fannst hún persónulega ekki finna fyrir misrétti kynjanna gagnvart sjálfri mér. „Hins vegar finnst mér ég hafa oft heyrt á tali karla að þeir líti alls ekki alltaf á konur sem  jafningja sína.“

Svíþjóðarskóli í stjórnsýslu

Fjögurra ára starfi sínu í sendiráði Íslands í Svíþjóð líkir Berglind við að vera í framhaldsnámi í góðri stjórnsýslu. Sænska stjórnsýslan var til fyrirmyndar miðað við þá íslensku, en hún hafði mikil áhrif á viðhorf Berglindar til stjórnsýslu og var henni mikill lærdómur. Berglind telur að þessi sýn hennar hafi haft einhver áhrif á ráðningu hennar í starf ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu og vissulega spurðum við hana um þá reynslu.

Mjög sjaldgæft er að fólk fari úr utanríkisráðuneytinu í velferðarmál, nánast óþekkt, því þeir sem valið hafa utanríkisráðuneytið eiga oft erfitt með að fást eingöngu við innlend viðfangsefni.

Við innum eftir ástæðunni fyrir þessari tilfærslu. Berglind segir ástæðuna vera að hún hafi séð starf ráðuneytisstjóra auglýst, hún hafi haft mikinn áhuga á velferðarmálum, ásamt því að hafa haft áhuga á því að vera ráðuneytisstjóri og sá þarna í fyrsta skipti slíka stöðu auglýsta.

Ólétti 33 ára ráðuneytisstjórinn

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra 1987-95, auglýsti ráðuneytisstjórastarfið og margar konur sóttu um starfið, enda töldu konur sig örugglega í fyrsta sinn eiga möguleika á starfinu því Jóhanna var ráðherra. Góð menntun Berglindar, reynsla úr utanríkisráðuneytinu og víðar komu henni í viðtalið en hún telur að það sem hún lærði í Svíþjóð hafi gert hana sterkari í samkeppni við aðra.

Ég var komin 7 mánuði á leið þegar ég mætti í viðtalið, þegar ég gekk inn var augljóst að ég var ófrísk”

Berglind var komin 7 mánuði á leið þegar hún mætti í viðtalið og var augljóslega ófrísk. Berglind lét meðgönguna ekki stoppa sig, segja má að hún hafi látið vaða löngu áður en Sheryl Sandberg, höfundur bókarinnar Lean In skrifaði um það. Það kom ekki í veg fyrir ráðninguna að hún væri barnshafandi. „Ég er ekki viss um það hvernig karlráðherra hefði tekið á því."

Það er full ástæða fyrir okkur að muna að halda áfram að bjóða fram krafta okkar þó við séum í barneignarhugleiðingum”.

Berglind telur að Svíþjóðarskólinn (reynslan) hafi gefið henni forskotið sem þurfti í starfsviðtalinu. Hún kom inn með ákveðnar skoðanir og hugsjónir um hvernig mætti breyta velferðarmálum Íslands til hins betra, sem leiddi til þess að Jóhanna réði hana í starfið.

Jóhanna og Berglind sömdu sérstaklega um upphaf starfsins. Ákveðið var að fráfarandi ráðuneytisstjóri, Hallgrímur Dalberg, sem var að hætta vegna aldurs, gegndi starfinu þar til Berglind gat hafið störf. Hallgrími þótti gaman að segja frá því að hann væri að leysa af í barneignarleyfi og féllst á að vera aðeins lengur. Berglind fór aftur til Svíþjóðar og eignaðist sitt annað barn, sem reyndist stúlkubarn, Sigrúnu Ingibjörgu.

Fórnarkostnaður að byrja of snemma

„Ég byrjaði alltof snemma að vinna eftir fæðinguna, það var fórnarkostnaðurinn“ en Berglind þurfti að byrja að vinna áður en Sigrún varð þriggja mánaða gömul. Fyrsta mánuðinn vann hún hálfan daginn en eftir það tók við fullt starf. Fórnarkostnaðurinn var sá að þurfa að fara frá barni sínu of snemma en það var ákveðin bót í máli að geta myndað þau sterku tilfinningatengsl sem koma með brjóstagjöf.

Berglindi tókst að hafa Sigrúnu á brjósti til rúmlega fimm mánaða aldurs, þrátt fyrir að hafa farið í utanlandsferð á vegum vinnunnar. Við heimkomuna eftir aðra ferðina á vegum ráðuneytisins vildi Sigrún ekki lengur sjá brjóst því mamma Berglindar hafði stungið stærri göt á pelatúttuna. Það voru vonbrigði enda ætlaði hún að halda þessu áfram, en mamma hennar sem meinti vel vildi að barnið fengið vel að drekka.  [kaldhæðið innskot Sigrúnar, sem var viðstödd viðtalið: “Hún er ekki langrækin!”].

Berglind varð ráðuneytisstjóri 33 ára gömul og næstyngsti ráðuneytisstjórinn frá upphafi. Að auki var Berglind fyrsta konan til að gegna ráðuneytisstjórastöðu á Íslandi. Berglind og Jóhanna unnu saman í sex ár, eða þar til Jóhanna sagði af sér sem félagsmálaráðherra.

Berglind starfaði í félagsmálaráðuneytinu þar til hún tók til starfa sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Þá var hún nýbúin að missa eiginmann sinn, Gísla Ágúst Gunnlaugsson, frá þremur börnum, en hann hafði barist við MND sjúkdóminn í fimm ár. Yngsta barnið, Sæunn, var 3 ára.

Hennar afrek:

Umbylti fæðingarorlofinu

Stolt segir Berglind okkur frá þátttöku sinni í að hafa bylt fæðingarorlofinu. Berglind var formaður nefndarinnar sem umbylti fæðingarorlofsréttinum þannig að íslenskar konur og karlar urðu fyrst í heiminum með jafnan óframseljanlegan rétt á þessum sviði.

Fæðingarorlofið heyrði undir heilbrigðisráðherra á þessum tíma og skipuðu fjármála-, félags- og heilbrigðisráðherra í nefndina. Nefndinni var falið að jafna fæðingarorlofið, en hún gekk heldur betur lengra og ákveðið var að leggja til hálfgerða byltingu á kerfinu.

Nefndin hafði tvö markmið, að tryggja börnum meiri samvistir við báða foreldra og að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum þannig að karlar og konur væru í raun jafnlíkleg til að fara í fæðingarorlof. Næst á eftir jafnréttislögum er þessi löggjöf um fæðingarorlof að Berglindar mati dómi sú mikilvægasta fyrir jafnréttismálin.

Einhver ríki voru byrjuð að veita körlum nokkra daga í fæðingarorlof, en nefndin ákvað að gera þetta öðruvísi með því að hafa fæðingarorlofið ekki framseljanlegt milli foreldra.

Stundum þarf að beita þvingunum til að koma á raunverulegri þjóðfélagsbreytingu.

Fæðingarorlofið flaug í gegnum þingið eftir nokkra umræðu um af hverju það mætti ekki framselja það. Berglind segir að erfiðast hafi reynst að finna fjármögnun í breytingarnar, en þegar hugmyndin um að ganga á atvinnuleysissjóð (sem var útþaninn þegar atvinnuleysið var ekki nema 1%) til að fjármagna kerfið hafi þetta farið í gegn.

Fæðingarorlofið er mikið jafnréttismál

Breytingin á fæðingarorlofinu vakti mikla athygli á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2000, en þátttakendur þar töldu að þetta væri ein merkasta tilraun sem gerð hafði verið í jafnréttismálum.

Eftir að atvinnuleysi fór að aukast aftur eftir hrun hefur verið kroppað og kroppað í fæðingarorlofið til að spara og telur Berglind að seinni breytingin með lækkun á þaki sjóðsins hafi farið illa með orlofið. 

„Þetta var [er] mikið jafnréttismál og því er þyngra en tárum taki að feður séu jafnvel hættir að taka fæðingarorlof, eða að það sé að minnka.“

Berglind bendir okkur á að yngsta dóttir hennar, Sæunn, hafi skrifað BA verkefni sitt um þróun á nýtingu fæðingarorlofs foreldra sem sniðugt væri að skoða, en Sæunn skrifaði mjög góða grein fyrir Hennar sem má finna hér á vefnum.

Hennar orð:

Viljasterk

Aðspurð um hvaða orð lýsir hennir best er hún ekki lengi að hugsa sig um og segist vera viljasterk. Þegar Berglind ætlar sér eitthvað þá er ekkert sem stoppar hana. Við fengum skemmtilegar lýsingar á því í viðtalinu og bjóðum ykkur með í smá ævintýri.

 

 

Hennar jafnrétti:

Gagnsætt ráðningaferli

“Ef ég á bara að nefna eitt: gagnsætt ráðningaferli. Ég fer inn í utanríkisráðuneytið út af auglýsingu, ég fer inn í félagsmálaráðuneytið út af auglýsingu og það er auglýst framkvæmdastjórastarf Norðurlandaráðs og ég sæki um þar.”

Á sínum tíma auglýsti utanríkisþjónustan eftir starfsfólki, það var ekki skylda að auglýsa. Berglind sér auglýsinguna og sækir þess vegna um. Það er lykilatriðið fyrir framgang kvenna að stöður séu auglýstar. Konur þurfa miklu frekar á því að halda, þá fara þær að velta þessu fyrir sér.

Gagnsæi í ráðningum skiptir alltaf miklu máli sérstaklega fyrir konur. Þær hafa ekki alltaf sama tíma til að vera með í félagsskap eins og karlar þar  sem stundum er lagt á ráðin um mannaráðningar. Karlarnir vita oft miklu fyrr um það sem er að losna. Konurnar eru oftar  að bíða eftir auglýsingunum.

Að auglýsa stöður er líka svo mikið lykilatriði upp á jafnrétti á vinnustað. Þannig að aðilinn við hliðina á þér sé ekki búinn að fá stöðuhækkun og kominn í nýtt starf sem þú vissir ekki að væri laust.

Gagnsætt ráðningarferli er lykiltæki. Tækifærin sem Berglind hefur getað stokkið á komu  vegna auglýsinga.

 

 

Hennar menntun:

Lögfræði og alþjóðasamskipti

Eftir einfalda útilokunaraðferð um hvað Berglind vildi ekki læra varð lögfræðin fyrir valinu. Áður hafði Berglind lagt stund á stjórnunarfræði í Bretlandi sem henni fannst of tölvunar- og stærðfræðimiðað. Hún ákvað því að koma heim og hefja nám í lögfræði.

„Fyrir þær sem hafa áhuga á þjóðfélagsmálum og pólitík þá er lögfræðin fín.”

Lögfræðin var ágætis nám fyrir það sem Berglind vildi taka sér fyrir hendur. Hún hafði samt ekki hugsað sér að verða dómari eða lögmaður. “Mér fannst bara að fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðfélagsmálum og pólitík væri lögfræðin fín.”

Hennar áskorun:

Starfsmannamálin alltaf erfiðust

Aðspurð um áskoranir í starfi segir Berglind að starfsmannamálin hafi verið langerfðustu málin. Hún tók þau inn á sig, hvort sem fólk sá það eða ekki. Starfsmannamálin eiga til að vera langerfiðust, flestir segja það, og þá sérstaklega konur.

„Þú þarft að taka erfiðar ákvarðanir og vera með uppbyggilega gagnrýni”

Berglind telur að þetta sé konum erfiðara, því þær hugsi oft um marga hluti í einu. Karlmenn geta einangrað viðfangsefnið án þess að hugsa um alla hina 9 hlutina á sama tíma, sem auðveldar þeim að taka ákvarðanir. Konur fara í hringi, hugsa um margt og því getur það þvælst fyrir þeim.

„Starfsmannamálin almennt, eru miklu meira krefjandi en innihald starfanna.“

Berglind delir með okkur góður ráði þegar kemur að starfsmannamálunum. Gott er að reyna setja sig í spor fólksins og fara ekki að þessum málum með ofsa og látum, sem að karlmenn myndu kannski frekar gera.“

Hennar ráð:

Þarft að vera tilbúin að gera það sem þarf!

Við spurðum Berglindi hvort hún hefði einhver ráð fyrir okkur hinar. Ráðin átti hún vissulega, enda gert margt og upplifað margt sem aðrar konur hafa aldrei komið nálægt. Berglind minnti okkur á að við þurfum að vera tilbúnar að gera það sem þarf og þegar við sækjum eftir erfiðari störfum verðum við að vera tilbúnar að leggja harðar að okkur.

„Þig verður að langa rosalega mikið í starfið. Það er rosalega kalt á toppnum, eiginlega bara ískalt.”

Þegar sóst er eftir starfi þarf að vera mikill áhugi fyrir starfinu sjálfu því starfið gæti valdið því að þú eigir erfitt með að bindast samstarfsfólki böndum. Gagnlegt getur verið að halda fjarlægð þar sem þú ert að fara yfir erfið mál. Samt er lykilatriði að samstarfsfólk finni umhyggju yfirmanns. Allar verðum við að gera okkur grein fyrir út í hvað við erum að fara og hvað það getur kostað okkur.

„Fyrst og fremst verður þú að gera þér grein fyrir því hvað þú ert að fara út í og hvað það getur kostað þig.”

Til að mynda þegar Berglind vissi hvert verksvið hennar yrði hjá OECD þá var hún sterk í félags-, heilbrigðis- og menntamálum, en veikust í umhverfismálunum. „Ég er alltaf tilbúin að leggja þetta á mig og ég er ekki feimin að viðurkenna og sækja mér þekkingu  ef mér finnst mig  vanta eitthvað til að geta gegnt starfinu.“

Líkt og Berglind segir um viljastyrkinn; „Ef þú ætlar þér eitthvað þá verður þú að gera það sem þarf til að ná því! Þetta er ekki óskhyggja.“ Hvert ætlar þú? Hvernig ætlar þú að fara að því? Hvernig ætlar þú að auka hæfni þína?

Hennar ráð til 15 ára Berglindar:

„Ekki taka lífinu svona alvarlega eins og ég.”

Berglind bendir 15 ára sjálfri sér á að hún megi hafa svolítið gaman af lífinu, enda var hún alveg rosalega alvarleg á þeim tíma. Hún var brjálæðislega metnaðargjörn og einblíndi einum of á framann, menntunina og allt sem því fylgdi. Berglind fór til að mynda í Kvennaskólann 12 ára af því hún vissi að það væri svo góður skóli og góðir kennarar þar, en þar fannst henni svo ekki gaman að vera. Á meðan voru vinir hennar í gagnfræðiskóla að hafa það skemmtilegt. Hún hefur einnig sagt við stelpurnar sínar, „ekki taka lífinu svona alvarlega“.

Aðspurð um hvort þessi alvarleiki og metnaðargirni séu ekki ástæðan fyrir því að hún hafi náð svona langt, svarar hún: Jú kannski af því að ég tók lífinu svona alvarlega, en ég er ekkert að mæla með því! Ég hef tekið lífinu of alvarlega og þarf kannski að fara að taka því aðeins léttar, það er það eina sem ég hef séð eftir.“

Hennar framtíðarplan:

Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?

Við urðum að spyrja Berglindi um hvað hún ætlar nú að verða þegar hún er orðin stór, svarið var of gott til að breyta því nokkuð og setjum við það því hér óbreytt.

„Ég veit það ekki, ég hef aldrei getað ákveðið það. Það er samt kominn tími til að ég fari að ákveða það. Meira að segja hjá einhverjum metnaðargjörnum eins og mér þá æxlast þetta svona, þú sérð eitthvað auglýst og þetta æxlast, þess vegna veit ég ekki ennþá hvað ég ætla að verða.

Ég er ánægðust með það í lífinu að hafa eignast 3 börn. Maður getur átt allan þennan starfsferil en þegar til kastanna kemur er það eina sem skiptir máli; fjölskyldan. Þú þarft ekki annað en að lenda í slysi og þá ertu ekki fær um að gegna starfinu þínu. Þannig að það er rosalega hættulegt ef það gengur allt út á vinnuna.

„Fólk getur átt börn. Eru þau þá ekki stærsta áhugamálið þitt en ekki vandamálið?”

Fólk getur átt börn. Eru þau þá ekki stærsta áhugamálið þitt en ekki vandamálið? Það þarf enginn að eignast börn í dag ef einstaklingurinn vill það ekki. Börnin eru mér óendanlegir gleðigjafar og nú litla sonardóttir mín. Það að eignast börn er stærsta ákvörðunin í lífinu.  Makaval er mikið mál en þar skilur fólk hins vegar ef dæmið gengur ekki upp. Fræðimenn og listamenn geta kannski skrifað verk sem lifa um aldur og ævi, en fyrir þá og okkur hin sem erum ekki í skapandi greinum hvað skiljum við eiginlega eftir okkur? - Börnin okkar!“

Map

Hennar spurði Berglindi rétt í lokin, í anda umfjöllunar dagblaðana hvort hún væri að hugleiða að fara í Forsetaframboð. Svaraði hún þá hlæjandi að hún væri að sjálfsögðu eins og allir aðrir búin að fá áskoranir.